Sunday, February 25, 2007

Mér líst svo vel á það að Blómaval hafi flutt í húsið hjá Húsasmiðjunni, það þýðir að nú þarf fólkið sem á Kaffi rós að gera eitthvað til að laða fólk að og þau hafa fundið þvílíkt snilldarráð sem er að halda ýmsa markaði þarna. Um daginn voru þau með nærfatamarkað og þar fórum við Helga og birgðum okkur upp af brjóstahöldurum og svo var hún núna að opna nýjan markað með afgangsfötum frá Perfect, GS, gallerí og Fargo, dýrasta flíkin hjá þeim er 2.900! Það liggur við að það sé verðið fyrir að fá að máta í Fargo. Snilld.

Það sem er þó ekki jafn mikil snilld er það hvað er að verða um almenningsbókasöfn í landinu. Ég man þá tíð að maður gat fengið frítt Bókasafnskort hvar sem er og mig grunaði ekki að maður þyrfti einhverstaðar að borga fyrir annað en sektir og týnd kort. En annað kom nú á daginn hérna fyrr í vikunni þegar Una ætlaði að taka fyrir mig bækur sem voru til í Hafnafyrði og senda móður sína með hana norður, úr þessu varð alveg heljarinnar vesen sem endaði svo með því að Una fór fýluferð og ég þurfti að panta bókina í millisafnsláni. Piff.

Jæja, nú er ég búin að sitja í 10 mínútur og láta mér detta eitthvað annað merkilegt í hug til að segja en það kemur ekkert, ætli ég verði þá ekki bara að fara að sofa. Eða nei, ég man eitt! úff ég verð bara pirruð áður en ég næ að skrifa það. Í gær fór Helgi með föt niður í þvottavélina, hann ætlaði bara að setja í eina vél og hann sá að það hafði enginn pantað hana fyrir daginn þannig að hann stakk bara í eina vél og bókaði vélina ekki neitt, því að hann ætlaði ekki að nota hana. Svo þegar hann fór niður seinna um daginn til að ná í þvottinn, þá sér hann það að það hafði einhver tekið þvottinn úr henni og sett hann á bekkinn, af því að hann hefði ætlað að fara að nota hana, sem að hefði verið allt í lagi ef að hann hefði leyft henni að klára! þá hafði ófétið bara stoppað vélina af því að Helgi hafði ekki skrifaði þetta í bókina þannig að þvotturinn okkar lá bara þarna á bekknum óþveginn og rennandiblautur! Er það nú dónaskapur!

-Tschüss-

Sunday, February 18, 2007

Læri læri tækifæri...

Í dag hefur gefist tækifærið til að læra! Helgi er í burtu og ég er ekki að vinna. Ég svaf út og vaknaði fersk þannig að þetta hefði ekki getað verið betra. En ég ákvað að gera ekki neitt í staðin. Ég skoðaði allar síður á netinu sem mér datt í hug, tvisvar, talaði við Lilý á skype og kíkti svo aðeins aftur á helstu síðurnar. Nú er svo komið að ég er að fara í bollukaffi til múttu þannig að ég næ hreinlega bara ekkert að læra í dag, bömmer.
En talandi um bollukaffi, þá skal ég segja ykkur það að ég verð eiginlega að borða tvöfaldan skammt núna vegna þess að það eru tvö ár síðan ég fékk mér síðast bollur, það var ekki svoleiðis munað að fá í Sölden. Svo er að koma öskudagur, allir litlu krakkarnir búnir að hafa áhyggjur síðan í byrjun árs hvað þeir ættu eiginlega að vera og hvaða lög þau ættu að syngja, klukkan hvað á að fara á fætur og í hvaða búðir á að fara og síðast en ekki síst í hvaða liði þau ættu að vera. Það var nú ekki alltaf dans á rósum að vera lítill. Mig langaði alltaf að vera flugbangsi, fékk það aldrei. Það var sárt að verða stór og þurfa að hætta þessari hefð, við stelpurnar slepptum þó ekki alveg jafn snemma og aðrir, fórum í Brynju eitt árið og sungum fyrir ís. Næsta öskudag reikna ég ekki með að syngja neitt, sé ekki fram á að verða vör við hann af því að ég er orðin stór.
Í gærkvöldi vorum við með matarboð, eins og stóra fólkið gerir. Anna og Jens komu og borðuðu hjá okkur, ég vona að við höfum ekki sent þau heim með Salmonellu, kjúllinn sem við buðum upp á var næstum lifandi í fyrstu atrennu, honum var stungið í ofninn med det samme og ég vona að enginn hljóti skaða af.
Og að öðru, internetið er alveg stórhættulegur hlutur, það getur stolið fleiri klukkutímunum frá manni, síður eins og alluc.org og peekvid.com eru ekki sniðugar!
Þetta var allt, Helgi búinn í sturtu og við á leið í bollu!
-Valdís-

Thursday, February 15, 2007

Hmmm

Ekki getur verið að einhver viti hvað er um að vera hérna til hliðar í síðunni.. það er eins og blogger lesi ekki íslensku stafina og ég kann ekki að laga þetta, ég helt að þetta myndi kannski lagast af sjálfu sér eins og þetta brenglaðist af sjálfu sér, en svo virðist ekki vera..

Ohh tölvan mín er aftur búin að vera biluð og ég fór með hana í viðgerð og hún var þar í næstum viku og ég fékk hana ennþá bilaða til baka af því að það á eftir að panta eitthvað móðurborð til að setja í hana, ég ætla að vona að það muni ekki taka langan tíma. Rosalega hlýtur það að hafa verið einfaldara þegar það var ekki öll þessi tækni. Þegar gsm símar voru nýjung og þeir sem áttu svoleiðis voru alveg ótrúlega svalir með aukatösku undir símann og allr sem honum fylgdi. Í dag er það þannig að um 10 ára aldur eru flestir á 2 eða 3 símanum sínum. Þegar tölvur voru nýjung á heimilum og til að komast inn í það sem maður vildi þurfti maður að skrifa dos/leikir/tetris eða eitthvað álíka en nú eru allir komnir með xp og eitthvað sem að enginn kann á og ef það bilar þá þarf maður bara að bíða í viku! En allavegana, þetta er ekkert skemmtilegt raus, hinsvegar er gaman að hugsa til þess að þetta sem ég var að tala um var fyrir um það bil 10 árum, ég væri til í að geta kíkt 10 ár fram í tímann og séð hvað verður í gangi þá..

En allavegana.. ef að einhver kann að laga þetta linkadót þá væri það fínt :)

Sunday, February 11, 2007

Passið ykkur bara..

Já nú getið þið farið að vara ykkur! því í gær fórum við hjúkkurnar niður á FSA og fengum að stinga hvor aðra :) jebbs, nú kann ég að taka blóð úr fólki og hef í hyggju að fara niður í apótek og kaupa mér sprautur til að æfa mig heima.. Þetta var alveg magnað, svolítið ógnvekjandi í fyrstu, ég var alveg skíthrædd um að Helga myndi stinga mig til bana hreinlega, en hún stóð sig alveg með prýði kellan, ég er bara með smá marblett. Svo löggðumst við ein af annarri á bekkinn og þetta gekk eins og í sögu. EFtir það fengum við að fylgjast með öllu ferlinu, frá því að þetta var í litlum glösum, þar til að niðurstöðurnar voru komnar. En nú er ég að hugsa um að fara í afgangskökur i Byggðaveginum því að ég missti af þeim í gær ;)
ciao..

Sunday, February 04, 2007

Undur og stórmerki

Já, það ómögulega hefur gerst! Í gær þá lærði ég heima! já, ég opnaði bókin og las, ég las eins og það væri engin morgundagur, ég las 2 og 1/2 kafla! sem að þýðir að ég á bara eftir að lesa hálfan kafla til að ná kennaranum í þessu fagi. (tölum ekkert um hin 5 sem ég er í).

Þá eru öll lögin búin í undankeppninni í júróvisjón.. hver fer fyrir okkar hönd? dunununu..