Monday, August 11, 2008

Blogg blogg blogg og meira blogg...

Þegar ég skrifaði titilinn þá áttaði ég mig á því að ég er farin að syngja svo margt, flestar setningar sem ég segi, ég finn eitthvað lag með þeim. Birkir hefur gaman af því þannig að ég læt hugmyndina um að þetta sé merki um geðveilu sem vind um eyru þjóta.

Síðustu helgi var mikið gaman, mikið stuð. Við fórum á ættarmót hjá fjölskyldunni hans Helga. Það var haldið á Ólafsfirði og endaði svo á sunnudeginum með kaffiveislu í Höllinni (veitingastaður á Ól) í boði Hönnu gömlu sem var áttræð. Þarna voru flestir af nánustu ættingjum Helga mættir og margir hverjir að sjá prinsinn í fyrsta skipti þannig að þetta var heilmikill sýningartúr og auðvitað var fólk yfir sig hrifið af litla frændanum, enda ekki við öðru að búast.

Það er farið að dimma, mann langar bara að vera heima með kveikt á kertum á kvöldin og hafa það gott. Rútínan er farin að heilla mann, en ég held að það sé best að láta sig ekki hlakka of mikið til hennar heldur njóta þessara tveggja vikna sem eru eftir af sumrinu.

Wednesday, August 06, 2008

Sumarið er tíminn..

Já, ég er ekki frá því að þetta sumar sé það besta hingað til! Veðrið hefur svo sem ekkert verið til að hrópa húrra fyrir alla dagana í sumar, en við búum nú á Íslandi og ég er nú bara ánægð með þetta. Ég held að það sé nú ekki hægt að kvarta þar sem við fengum þetta frábæra veður á landsmóti skáta sem var haldið hérna rétt við bæjardyrnar og við familían skelltum okkur í útilegu, fyrstu útileguna hans Birkis. Við vorum í fjölskyldubúðum og það er ekki laust við að það hafi verið hörkustuð! Allavegana hefur það verið ákveðið að þetta verður endurtekið á næsta móti og líklega verður það heldur fjörugra þar sem það voru þrír grísir þarna fæddir 2008 og einn grís fæddur 2007 þannig að það verður stuð þegar þau verða þriggja og fjögurra ára. Svo verða nú kannski fleiri komin í hópinn.

En já, sumarið er bara búið að fara í að knúsast og kúrast og fara út að labba, voðalega notalegt. Ég segji það samt ekki að ég er nú alveg fegin að það er að koma haust, Helgi verður meira heima og ég fer að hafa meiri samskipti við fólk sem getur svarað mér:) Það eru kostir og gallar við haustið, ég fæ beyglurnar mínar aftur norður, en Una, Þórunn og Lilý fara. Það hefur alltaf verið leiðinlegt, en er enn leiðinlegra núna þegar þær missa af svo miklu hjá Birki. En það er bara eins gott að þær verði duglegar að koma norður;)

Ég er núna að læra á fullu, ákvað það í lok júlí að skella mér í eitt ágústpróf. Ásta Lilja er svo dugleg að hún fer út að labba með Birki 2 tíma á hverjum degi á meðan ég sekk mér ofan í glósurnar. Ef að þetta próf fer eins og ég vona þá þarf ég ekkert að sitja áfangann í vetur og létti þar með undir fyrir næstu önn. Það er líka kannski eins gott þar sem ég hef heyrt að hún sé svolítið strembin.

Ofnklukkan hringir og barnið kallar!